Arnarfjardar ævintýri

Við bjóðum þér að upplifa heilann dag af stórkostlegum ævintýrum um Arnarfjörðinn


Hvernig væri að eyða einum degi á Arnarfirði, einum fallegasta firði Íslands. Fara í sjóstöng, hvalaskoðun, söguferð um slóðir Gísla sögu Súrsonar og borða þriggja rétta grillaðan kvöldverð á eyðijörð við Arnarfjörð. Ferðalýsingin er raunveruleg, já heilt ævintýri.

„Frábær ferð sem kitlar öll skynfæri“

Brottför kl. 10.00 frá Bíldudalshöfn. Siglt er með farþegaskipinu Happasæl BA 94 sem er um 100 tonna stálskip útbúinn sem farþegaskip og veitingastaður. Framundan er ævintýralegur dagur þar sem margt á eftir að koma fyrir augu og eyru, já og gott í munn líka. Um borð er kaffi á könnunni ásamt ýmsu öðru sem nauðsynlegt getur talist fyrir dags ferðalag.

Fyrsti áfangi
Siglum út í fjörð, á fiskimið Arnarfjarðar. Siglingin tekur um 30 til 40 mínútur áður en sjóstöngin er gerð klár og veiðar hefjast. Líklegt er að aflinn verði góður, aðallega þorskur. Hver fær stærsta fiskinn og hver fær þann minnsta?, en eitt er víst, allir munu njóta veiðanna. Þegar komið er gott í veiðimennsku þá er haldið áleiðis inn fjörðinn í átt til Geirþjófsfjarðar.

Annar áfangi
Á siglingunni inn fjörðinn er léttur hádegisverður og kaffi á könnunni. Fiskurinn sem veiddist er flakaður og meðlæti gert klárt fyrir grill að kvöldi dags. Nú er betra að hafa augun opin því hvalir eru mjög algengir í Arnarfirði, Hnúfubakur gæti verið á leik í firðinum og svo er frekar líklegt að Haförn fljúgi yfir, fjörðurinn heitir jú Arnarfjörður. Fræðst er um hafið, veiðar og mannlíf fyrr og nú. Náttúran er einstök í Arnarfirði, allt gott nesti fyrir hugann.

Þriðji áfangi
Þegar komið er inn á Geirþjófsfjörð er ankeri varpað innst í firðinum og léttbátur sjósettur. Nú er fyrir höndum ganga um söguslóðir Gísla sögu Súrssonar, sögustund sem allir munu hafa gaman að. Bær Auðar heimsóttur, Fylgsnið, Kleyfin og Einhamar eru meðal sögustaða sem komið er til. Tekið er með nesti til að snæða á einum áfangastaðnum. Að loknum söguhring er haldið til skips á ný.

Fjórði áfangi
Þegar allir eru komnir um borð er siglt út fjörðinn og komið við á skjólsælum stað, ankeri varpað og allir ferjaðir í land. Á meðan kolin hitna fær fólk sér léttan göngutúr og skoðar sig um, leikur sér í fjörunni eða bara situr og nýtur útsýnis.
Nú er framreiddur kvöldverður, fyrst forréttur og síðan aðalréttur og svo er endað með eftirrétti og ketilkaffi. Fiskurinn frá því um morguninn mun smakkast frábærlega og allt annað sem planað hefur verið.
Þegar allir hafa fengið nóg og eru sáttir er haldið til skips á ný og siglt til Bíldudals. Ekki er ólíklegt að klukkan verði á bilinu 22.00 til 23.00 þegar til hafnar er komið eftir frábæran dag.

Hefjum siglingar að vori 2019

 • Fullorðinn: Gerum tilboð
 • Börn: 0 til 11 ára frítt
 • Eldri borgarar: Fá afslátt
BÓKA

Ferðaupplýsingar 2019:

 • Brottför: Bíldudal kl. 10.00
 • Lágmarksfjöldi: 15
 • Hámarksfjöldi: 47
 • Lengd ferðar: 10 – 11 klst.
 • Innifalið: Sjóstöng, hvalaskoðun, súpa, kaffi og meðlæti, nesti í söguferðina, söguferð um söguslóðir Gísla Súrssonar í Langabotni Geirþjófsfirði og þriggja rétta kvöldverður á skjólsömum á fallegum stað í Arnarfirði
 • Börn 0 til 15 ára verða að vera í fylgd fullorðins
 • Hafið samband og við formum ferðina saman
 • Gerum einnig tilboð