Áhugavert


EagleFjord ferðaþjónusta starfar á sviði afþreyinga; siglinga, sjóstöng, söguferða á sjó, leiðsagnar og menningar

Framkvæmdastjóri EagleFjord er : Jón Þórðarson

Á Bíldudal

Skrímslasetrið
Í Arnarfirði búa öll helstu sæskrímsli sem við Ísland eru. Margar sögur eru sagðar af skrímslum í firðinum og er sú yngsta um 8 ára gömul. Er hún af skrímslinu Faxa, það sást til þess í Geirþjófsfirði sumarið 2009. Á Bíldudal er Skrímslasetur þar sem fræðast má um þessar kynjaverur, lesa sér til um þær og hlusta á sögur. Efasemdamenn sem inn koma hafa margir hverjir breytt trú sinni að lokinni heimsókn í setrið. Sjón er sögu ríkari og þarna verður sagan ljóslifandi.

Tónlistasafn
Melódíur minninganna er tónlistasafn Jóns KR. Ólafssonar. Á safninu má sjá margar af vinsælustu vínilplötum 6. 7. og 8. áratugarins svo eitthvað sé nefnt. Ljúfir tónar leika um eyru og svo er aldrei að vita nema söngvarinn syngi smá lagstúf. Þarna er einnig hægt að versla sér plötu og bók.

Við Arnarfjörð

Ketildalir
Ferð um Ketildali er fáu lík, tala nú ekki um ef Jón Þórðarson kemur með í ferðina sem leiðsögumaður. Fjöllin, sandstrendurnar og fjallahringurinn, já sagan og huldufólkið, sæskrímsli sem gengið hafa á land og orðið af steinum vegna aldurs, er meðal annars það sem fyrir augu ber. Það er um 45 mín akstur út í Selárdal, en látið klukkuna ekki hafa áhrif á ykkur. Takið ykkar tíma og njótið þessarar frábæru náttúru sem á leið ykkar verður.

Hringsdalur, Kuml frá 10. öld
Hringsdalur er einn Ketildala, næstur fyrir utan Hvestu. Í Hringsdal hafa fundist fimm kuml frá 10. öld. Það má segja að eitt þeirra sé merkara en önnur, þar voru öll vopn með í gröfinni, kumlið hafði ekki verið rænt eins og hin fjögur. Svo var síðasta kumlið sem fannst þarna bátskuml, báturinn hefur verið um 4,5 metra langur og eigandi hans grafinn þar með.

Selárdalur
Selárdalur er einn Ketildala. Ystir eru Verdalir sem munu hafa tilheyrt Selárdalslandi, en þar voru ver sem bændur leigðu og þaðan mun Jón Sigurðsson forseti hafa róið vor eitt á unglingsaldri. Ketildalir eru sagðir heita eftir Katli Þorbjarnarsyni Ilbreið en í Landnámu segir að hann hafi numið Arnarfjarðardali frá Kópanesi til Dufansdals.
Vatnahvilft er undir Þórisfjalli og er innri hvilftin í dalnum. Þar er stöðuvatn og áður fyrr báru menn stundum með sér bát til að róa á vatninu þegar haldnar voru skemmtanir. Vatnahvilft er ákaflega fallegur staður þar sem ríkir mikil kyrrð.

Samúel Jónsson – listamaðurinn með barnshjartað
Samúel hóf byggingu lystigarðsins eftir að hann var orðinn 65 ára og vann að listsköpun sinni það sem eftir var ævinnar. Listsköpun hans er sérstæð og mikla alúð hefur hann lagt í verk sín. Þarna má sjá Leif heppna horfa til Ameríku, ljónahring sem myndar gosbrunn, seli og kynjaverur. Samúel byggði einnig kirkju eftir að sóknarnefnd Selárdalskirkju vildi ekki taka við altaristöflu sem hann hafði málað af tilefni 100 ára afmæli kirkjunnar. Þá tók hann sig til og byggði kirkju utan um altaristöfluna og óskaði síðan eftir að Biskup vígði kirkjuna sem ekki varð. Fyrrihluta ævi sinnar bjó Samúel í Krossadal.
Til marks um eljusemi Samúels má geta þess að hann hjó niður heilan enskan togara er strandaði fyrir utan Krossadal um 1936. Járnið úr togaranum notaði Samúel í húsbyggingar í Krossadal og einnig í listaverkin í Selárdal, böndin notaði hann í girðingastaura og plötur í þök.

Gísli á Uppsölum
Þá er einnig kunnur Seldælingurinn Gísli Gíslason á Uppsölum í Selárdal. Hann varð þjóðkunnur í sjónvarpsþætti þar sem fram kom að hann hafði lifað og starfað mest alla 20. öldina án þess að nýta sér þægindi eins og rafmagn, vinnuvélar og ökutæki.

Sjóslys
Þann 20. september árið 1900 fórust fjórir bátar og sautján menn létust, flestir frá Selárdal og bæjum í Arnarfirði. Ellefu konur urðu ekkjur eftir þennan hörmulega atburð, tuttugu og fjögur börn urðu föðurlaus og tveir 14 ára gamlir drengir fórust með einum bátnum.

Dynjandisvogur, Dynjandisfoss
Einn fallegasti staður sem um getur á Vestfjörðum er Dynjandisvogur. Þegar komið er niður af Dynjandisheiði gnæfir Dynjandisfoss yfir í botni vogsins. Gönguleið er upp að Dynjanda, það er magnað að standa nánast upp við hann þar sem hann fellur niður í gljúfrið.

Neðan við Dynjanda eru fimm minni fossar sem hver um sig hefur sitt aðdráttarafl, þeir heita fyrstur neðan við Dynjanda; Hundafoss, Strokkur, Göngumannafoss (bakvið hann er hægt að ganga), Hrísvaðsfoss og Sjóarafoss. Dynjandi sjálfur er um 100 metra hár og efst er hann 30 metra breiður en neðst um 60 metra.
Við Dynjanda er tjaldsvæði og að hausti er þar gott berjaland. Við Dynjanda er ákjósanlegur áningarstaður og aldrei að vita nema að það bíti á ef rennt er fyrir fisk í ánni.

Tálknafjörður

Sundlaug
Á Tálknafirði er afar skemmtileg og góð sundlaug, við hana eru heitir pottar og rennibraut ásamt barnalaug. Aðstaðan er til fyrirmyndar, snyrtilega frá öllu gengið. Í tengslum við sundlaugina er rekin upplýsingamiðstöð og tjaldsvæði. Það er fátt betra en að skola af sér ferðarykið og dýfa sér í notalega laug í góðu umhverfi.

Berin stór og smá.

Berjaland
Víða, nánast alls staðar, má finna ber á Vestfjörðum. Krækiberin eru mjög víða, þau verða tilbúin til tínslu seinnihluta ágúst og það er vel hægt að tína þau út september. Bláberin er heldur fyrr á ferðinni, yfirleitt í annarri viku ágúst. Þau eru kannski ekki eins algeng og krækiberin en ef spurt er til vegar um þau ættu þau að finnast. Aðalbláber eru víða en það er svipað og með bláberin, best er að spyrja til vegar um þau og njóta síðan útivistar og safna forða til vetrar.

Gönguleiðir

Fjölmargar gönguleiðir eru á svæðinu. Gefið hefur verið út göngukort af svæðinu sem kaupa má á flestum stöðum. Góðar upplýsingar eru á kortunum um gönguleiðir og það annað sem máli skiptir. Til dæmis eru leiðirnar: Selárdalur / Krossadalur / Sellátrar, Selárdalur / Verdalir, frá Fossi / Barðaströnd, Lambeyrarháls / Patreksfjörður, svo eitthvað sé nefnt. Einnig eru til leiðir sem ekki eru komnar inn á kortið og er hægt að fá upplýsingar um þær hjá EagleFjord.

Heitar laugar

Reykjafjörður
Í Reykjafirði eru heitar uppsprettur og hefur verið hlaðin laug utan um eina slíka. Laugin er eingöngu gerð úr grjóti og torfi, mjög notaleg og vel heit. Það er til staðar góður búningsklefi og væntanleg er sturta. Þarna er einnig sundlaug sem þorpsbúar á Bíldudal byggðu, uppsteypt laug um 20 m löng og um 10m breið, mjög notaleg sundlaug. Ekki skemmir fagurt umhverfi og ekki er langt til sjávar ef einhver vill bregða sér í sjósund.

Pollurinn í Tálknafirði
Svolítið fyrir utan þorpið Tálknafjörð er heit laug. Þar er nú borhola sem notuð er til upphitunar sundlaugarinnar og íþróttamannvirkja í Tálknafirði. Áður fyrr var þarna hlaðinn pollur en upp úr 1980 voru steyptir þrír pollar og byggð búnings- og sturtuaðstaða sem er til fyrirmyndar. Þarna er afar notalegt að koma og njóta frábærs útsýnis á meðan vatnsins er notið til hins ýtrasta.